Eru ráðgjafar Geirs að tapa glórunni?

Ég velti því fyrir mér hvort ráðgjafar Geirs H Haarde séu við það að tapa glórunni. Hver upp á koman af annarri bendir til þess að ekki sé allt með felldu hjá þeim sem leggja línurnar fyrir Geir því tæplega getur það verið hann sjálfur sem spilar svona illa úr stöðu sinni. Eða hvað? Málatilbúnaður Geirs sem sakbornings fyrir Landsdómi snýst fyrst og fremst um að reyna að koma sér undan því að takast á við ákærurnar sem á hann eru bornar. Í stað þess er barist um á hæl og hnakka við að ónýta málið á tæknilegum atriðum með það að markmiði að forða forsætisráðherra hrunsins frá því að standa frammi fyrir ábyrgð sinni. Hver verður þá staðan ef Landsdómur vísar málinu frá eins og Geir krefst að gert verði? Erum við þá aftur komin á byrjunarreit? Verður þá engin stjórnmálamaður látin axla ábyrgð á því sem hér gerðist? Samþykkjum við það þá að stjórnmálin séu saklaus af þeim ósköpum öllum? Höfum við þá lúffað enn á ný þegar kemur að því að gera þá sem leika aðalhlutverkin ábyrga. Ekki hafa þeir boðist til þess sjálfir, svo mikið er víst.

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng að hefjast

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við göng undir Vaðlaheiði hefur tekið mörg ár biðin eftir því að hefja framkvæmdir orðin býsna löng að margra mati. Vegagerðin auglýsti í gær eftir tilboðum í smíði á stálbitum í bráðabirgðabrú að fyrirhuguðum muna ganganna og þar með má segja að markað sé upphaf framkvæmda við Vaðlaheiðargöng. Alþingi samþykkti í fyrra lög um opinberar vegaframkvæmdir, þ.m.t. Vaðlaheiðargöng og á þeim grunni er ráðist í gangagerðina. Enn liggur ekki fyrir hverjir munu standa að framkvæmdinni sjálfri en sex aðilar hafa lýst yfir áhuga sínum á að gera göngin en útboðsfrestur er enn ekki runinn út. Framkvæmdirnar munu hleypa nýju lífi í atvinnumálin á norðurlandi, ekki síst Eyjafirði auk þess að gjörbreyta öllum samgöngum á svæðinu.

Þeim er málið skylt

Svör við spurningum Einars Kristins Guðfinnssonar um töpuð útlán eru enn einn áfellisdómur yfir því fjármálakerfi sem sjálfstæðisflokkurinn innleiddi hér á landi. Það er ekki nóg með að hluti þess, þ.e. sk. gengistryggð lán voru ólögleg, heldur hefur nú verið dregið fram í dagsljósið frekar en áður að gríðarlegt umfang vafasmara útlána í bankakerfinu var byggt á loftkenndri froðu sem rann niður í svelginn þegar á reyndi. 503 milljarðar króna töpuðust í fjármálakerfinu á tveim árum. Þetta er upphæð sem nemur heildarútgjöldum íslenska ríkisins á yfirstandandi ári ásamt vöxtum. Stærsti hluti þessara glötuðu fjármuna er vegna glórulausra lána til annarra en einstaklinga og heimila sem sýnir betur en margt annað hvað þessum aðilum var mismunað á „góðærisárunum.“ Heimilin og einstaklingarnir urðu skilyrðislaust að leggja fram tryggingar fyrir sínum lánum og sanna greiðslugetu sína á meðan litlar sem engar kröfur voru gerðar til lögaðila, fyrirtækja og félaga sem stofnuð voru utan um lántökurnar.

Einn sem kann að skammast sín

Við sátum við eldhúsborðið í hádeginu, ég og konan, kroppuðum í mat og hlustuðum á útvarpið. Þá heyrði ég viðtal við bóndann á Bessastöðum sem sagðist alltaf hafa rétt fyrir sér. Þar á eftir var síðan lesing auglýsingu frá sjálfstæðisflokknum þar sem fram koma efnislega að efnahagshrunið hafi ekki síður verið vel heppnað en afnahagsstefnan sem örakaði það. Allt sem aflaga hefur farið í íslensku samfélagi væri öðrum að kenna en sjálfstæðisflokknum sem nú biði heimilum og fyrirtækjum bjargir við öllum þeirra meinum. 

Þá var mér hugsað til heimilishundsins, hans Mola. Moli er franskur mastiff hundur en sú tegund öðlaðist heimsfrægð í bíómyndinni Turner & Hooch þar sem Tom Hanks fór með hlutverk Turner en hundurinn Beasley með hlutverk Hooch. Tom er enn í fullu fjöri en Beasley hefur fyrir löngu kvatt þennan heim. Þetta eru frábærir hundar, barngóðir og vinalegir en líka stórir og þungir og nokkuð fyrirferðamiklar. Svo kostar slefið úr þeim umtalsverð þrif og önnur óþægindi.

Útsala á hálfberum konum

Ég er ekki mikill stangveiðimaður í merkingunni að veiða mikið. Ég fer of sjaldan að veiða, á ekki sérstaklega góðar græjur og kem of oft fisklaus heim. Veiðisögur mínar bera því að taka með fyrirvara. En ég hef veitt frá því ég man eftir mér og hef ógurlega gaman af því. Ég á það til að kíkja í veiðibúðir og láta mannalega innan um allt veiðidótið sem mig langar til að eiga. Ég les líka veiðiblöð á biðstofum, vafar um veiðisíður á netinu og skoða allar auglýsingar með miklum áhuga. Í Fréttablaðinu í morgun mátti sjá útsöluauglýsingu frá Veiðiportinum þar sem boðið er upp á allskonar veiðidót á aflsætti. Örugglega hægt að gera góð kaup þar.

Eitt skil ég samt ekki við þessa auglýsingu. Hver er tilgangurinn með því að hafa hálfnakta konu út í miðri á innan um öll tilboðin? Til hverra er verið að höfða? Karla - kvenna - barna? Halda eigendur verslunarinnar að þeir muni auka söluna hjá sér með því? Er það kannski þannig?

Útsala á hálfberum konum Er það trixið?

Maður með sambönd

Stundum sér maður ekki það augljósa þó það blasi við manni og hafi lengi gert. Þegar allt annað brást var það auðvitað bóndinn á Bessastöðum sem bjargaði málunum eins og alltaf á ögurstundu hjá þessari þjóð. Hvernig gat þetta farið framhjá okkur? Hver annar gat komið okkur til bjargar en sá sem er undir og ofan og allt um kring!

Auðvitað sá hann um málið – maður með sambönd.

Mogginn falsar tölur

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að fjárfestingar á Íslandi hafi að undanförnu verið um 10% af vergri landsframleiðslu og á síðasta ári verið 10,3%. Þetta eru rangar tölur hjá Mogganum eins og svo oft áður hjá flokksblaðinu. Fyrir áhugasama má á heimasíðu Eurostat sjá upplýsingar um fjárfestingar í ýmsum löndum Evrópu, þ.m.t. á Íslandi sem sýna allt aðrar tölur.

Þar segir að á árinu 2010 hafi fjárfesting hér á landi numið 12,9% af VLF og verði 14,6% á yfirstandandi ári. Spáð er að fjárfesting á Íslandi verði 16,5% af VLF á árinu 2012.

Til samanburðar má nefna að sambærilegar tölur fyrir Bretland eru 14,7% fyrir árið 2010, 14,3% á yfirstandandi ári og spáð 14,4% fjárfestingu þar í landi á næsta ári. Í Danmörku var fjárfesting 16,6% af VLF árið 2010, 16,7% 2011 og spáð er 16,8% fjárfestingu fyrir næsta ár. Í Bandaríkjunum var fjárfesting 16,6% af VLF í fyrra, verður 15,6% í ár og spáð er 16,1% fjárfestingu á næsta ári.

Það á svo sem ekki að koma á óvart að Morgunblaðið ljúgi til um tölulegar staðreyndir enda til þess skrifað.

Icesave í nýju ljósi

Haustið 2008 og fram yfir áramót 2009, reyndu íslensk stjórnvöld að ná samningum við Breta og Hollendinga um Icesave-ósómann sem fjármálasnillingarnir í Landsbankanum settu á fót. „Það hefur enginn íslenskur ráðamaður haldið því fram að við myndum ekki standa við skuldbindingar okkar út á við,“ sagði þáverandi forsætisráðherra Geir H Haarde um það mál í Fréttablaðinu 11. október 2008. Fljótlega eftir það lágu fyrir samningsdrög þar sem íslensk stjórnvöld lýstu sig tilbúin til að skrifa upp á skuldabréf til 10 ára fyrir allri Icesave-dellunni upp á 6,7% vexti, fyrsta afborgun innan fárra mánaða. Sem betur fór varð það nú aldrei. 

Mogginn í boði Flugfélags Íslands

Ég flýg oftar með Flugfélagi Íslands en mig langar til, vinnu minnar vegna. Um borð í vélum félagsins er boðið upp hefðbundna þjónustu í styttri flugum, kaffi, te og vatn og svo tímaritið SKÝ til aflestrar. SKÝ er ágætis tímarit sem er mikið lesið enda oft fullt af ágætum fróðleik um menn og málefni. Svo er boðið upp á Morgunblaðið eitt dagblaða. Ekki Fréttablaðið, ekki DV og eða önnur blöð. Bara Morgunblaðið. Hvernig ætli standi á því?

Næstmesti hagvöxtur innan OECD á Íslandi

Hún er dálítið undarleg umræðan um íslenskt efnahagslíf þessa dagana. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við brotthvarfi AGS í síðustu viku og yfirlýsingum þeirra og fleiri aðila sem lagt hafa okkur liðsinni við að komast út úr kreppunni hafa öll verið á þann veg að um tóma blekkingu sé að ræða. Formenn sjálfstæðis- og framsóknarflokks segja erlenda samstarfsaðila okkar fegra ástandið en útskýra ekki hversvegna þeir ættu að gera það eða hvað hagsmuni þeir ættu að hafa af því. Síðast í morgun mátti lesa viðtal við þá kumpána þar sem þeir segja efnahagsstjórnina varðaða glötuðum tækifærum og mistökum.

En hverjar eru staðreyndirnar þegar betur er að gáð?

Á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs var aðeins eitt land OECD ríkjanna með meiri hagvöxt en Ísland. Er það enn frekari vísbending þess að Ísland er að ná sér út úr kreppunni á meðan gervöll Evrópa situr eftir. Ætli mörg þau verst settu ríki Evrópu eins og Írland, Grikkland, Ítalía, Portúgal og Spánn myndu slá hendinni á móti 2% prósenta hagvexti? Eða félagar þeirra Sigmundar og Bjarna í frjálslyndum demókrötum og íhaldsflokknum í Bretlandi?

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS