Af hverju eru ekki fleiri fyrir Landsdómi?

Í

Stóra lygin!

Tryggvi Þór Herbertsson notaði Rannsóknarskýrslu Alþingis til að styðja við málflutning sinn og sjálfstæðisflokksins í umræðum um ný stjórnarráðslög í ræðu á Alþingi í kvöld. Það fannst mér skrýtið því varla er hægt að skrumskæla þá miklu skýrslu um hrunið meira en með því að ábyrgðarmenn hrunsins nýti sér hana með slíkum hætti. Rannsóknarskýrslan er skrifuð af ærnu tilefni og á rætur sínar að rekja til mesta siðferðilega, efnahagslega og hugmyndafræðilega hruns sem átt hefur sér stað hér á landi. Rannsóknarskýrsla Alþingis er í raun ítarleg skýrsla um sögu sjálfstæðisflokksins í níu bindum, sögu spillingar og pólitísks gjálífis sem á sér ekki nokkra hliðstæðu í sögu þjóðarinnar. Þetta benti ég þingmanninum kurteislega á.

Baráttan um Ísland

Nú fer fram á Alþingi umræða um frumvarp til laga um breytingar á stjórnarráði Íslands. Nái það frumvarp fram að ganga munu þau lög leysa af hólmi gömul lög þess efnis sem allir (flestir hið minnsta) hafa gengið sér til húðar og þarfnast endurnýjunar.

Það er athyglisvert að fylgjast með því hvernig hluti stjórnarandstöðunnar berst um af hæl og hnakka gegn boðuðum breytingum á stjórnarráðinu og reyna hvað þau get til að fella frumvarpið. Það er rétt að taka það fram að þingmenn Hreyfingarinnar, tveir þingmenn framsóknar og einn fyrverandi þingmaður flokksins eru annarar skoðunar en harðkjarninn undir stjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs. Þeir tveir leiða hópinn sem berst gegn nútímavæðingu stjórnkerfisins.

Hver verða viðbrögð forsetans?

Forseti Íslands segist ekki munu sitja undir „aðför fjármálaráðherra“ að sér og forsetaembættinu lengur. Nú virðist engin vita í hverju sú aðför er fólginn og forsetinn hefur ekki útskýrt það neitt frekar. En látum það liggja á milli hluta.

Hann segist ekki ætla að sitja undir þessu lengur, sem þýðir þá væntanlega að hann ætlar að bregðast við. En hvernig? Mun hann krefjast afsagnar fjármálaráðherra? Mun hann svipta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur umboði til áframhaldandi starfa? Mun hann reyna að rjúfa þing, boða til kosninga eða fela stjórnarandstöðunni að mynda nýja ríkisstjórn? Mun hann skipa utanþingsstjórn? Hver verða viðbrögð forsetans fyrst hann mun ekki sitja lengur undir því sem enginn veit hvað er?

Þessu þarf forsetinn að svara – helst áður en hann grípur til aðgerða.

Sjóður 9 - að gefnu tilefni

Sagt er frá því í fréttum í dag að Illugi Gunnarsson muni snúa til þings að nýju á næstunni eftir að hafa stigið til hliðar tímabundið vegna stjórnarsetu sinnar að hinum fræga Sjóði 9 hjá Glitni. Lögmannsstofan LEX hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið óeðlilegt við stjórn sjóðsins og farið þar í einu og öllu að samkvæmt reglum um slíka sjóði. Niðurstaða LEX er engin dómsúrskurður heldur álit lögmanna en ekki er ólíklegt að málið endi fyrir dómi. LEX menn komast að eftirfarandi í áliti sínu: „Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir og raktar eru hér að framan í kafla I er ekki sjáanlegt að neitt hafi verið athugavert við fjárfestingarheimildir, fjárfestingastefnu eða samsetningu eigna Sjóðs 9 miðað við þágildandi lög og reglur.“ Þeir bæta því reyndar síðan við að jafnvel þótt brotið hafi verið gegn tilteknum lögum geti það varla talist vera meiriháttar.

Syndum hlaðnir valkostir sjálfstæðismanna

Samkvæmt skoðanakönnun vilja 40% landsmanna að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði næsti formaður sjálfstæðisflokksins. Næstur á óskalistanum er núverandi formaður Bjarni Benediktsson með 11%, síðan Kristján Þór með 7,6% og lestina rekur síðan Guðlaugur Þór Guðlaugsson með 1,9% stuðning þjóðarinnar.

Icesave er ekki lengur umsemjanlegt

Sigrún Davíðsdóttir fjallar um Icesave-ósómann í Speglinum í dag. Þar rekur hún megin ástæður deilanna á milli Íslands annarsvegar og Breta og Hollendinga hinsvegar. Í stórum dráttum snýst deilna um að ríkisstjórn Geirs H Haarde ákvað að tryggja allar innstæður í innlendum bönkum, ekkert hámark, heldur allar innstæður ásamt því að gera gjaldþrotalög afturvirk og innstæður þannig gerðar að forgangskröfum. Með öðrum orðum; ákveðið var að mismuna innstæðueigendum eftir búsetu þeirra annarsvegar og hinsvegar að mismunar kröfuhöfum. Allt hefur þetta verið sagt áður og ekkert nýtt við það. Sigrún bendir sömuleiðis á það í pistli sínum að ríkisstjórn Geirs H Haarde bauð Hollendingum að greiða þeirra hluta Icesave-krafnanna með skuldanbréfi með ríflega 7% vöxtum sem Bretar vildi einnig fá. Bretum og Hollendingum hafði því verið gefnar réttmætar væntingar að þeirra mati fyrir endurgreiðslu Iceave-innstæðnanna. Allt hefur þetta verið sagt áður.

Þögnin ein

Í síðasta áramótablaði Viðskiptablaðsins var viðtal við Davíð Oddsson. Þar hélt Davíð því fram að í símtali sínu við Mervyn King Seðlabankastjóra Bretlands, hefði sá Breski lofað því að fella niður Icesvae-kröfurnar. Áður hafði annar pólitískur syndaselur, Árni Mathiesen haldið því sama fram í bók sinni um hrunið. Um þetta var talsvert fjallað í fjölmiðlum og merkir fræðimenn við Háskóla Íslands tóku málið upp á sína arma og taldi að símtalið góða væri sönnun um guðdómlega stjórnvisku fyrrum Seðlabankastjóra. Í kjölfarið á þessu viðtali upphófst mikill darraðardans hjá sjálfstæðismönnum sem kröfðust þess að fá útprentun á áður nefndu símtali og því sem fram fór á milli þeirra gamla foringja og seðlabankastjóra Breta.

Til að gera langa sögu stutta þá fór það þannig að í janúar sl. fékk fjárlaganefnd, að kröfu fulltrúa sjálfstæðisflokksins í nefndinni, fékk að lesa útskrift af símtalinu sem Davíð hafði áður haldið fram að myndi varpa nýju ljósi að stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og styrkja málstað okkar á alla kanta.

Sjómannaafslátturinn fer í rekstur Moggans

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins í dag eru íslenskir útgerðarmenn stærstu eigendur Morgunblaðsins.

Allt í góðu með það.

Í fréttinni segir einnig að eigendur blaðsins hafi reitt fram 651 milljón til að kaupa og reka blaðið á árinu 2009.

Allt í góðu með það.

Viðskiptablaðið segir jafnframt frá því að eigendurnir hafi lagt blaðinu til 240 milljónir á árinu 2010 auk þess sem 228 milljónir séu til reiðu inn í félaginu og heimild sé til að hækka hlutaféð um 300 milljónir.

Allt í góðu með það.

Samkvæmt þessu þá hafa eigendur Morgunblaðsins lagt fram samsvarandi upphæð til reksturs Moggans og sjómenn fengu í sjómannaafslátt sem í raun var niðurgreiðsla á launum til útgerða. Útgerðin hefur hinsvegar sagt að hún muni aldrei geta borgað sjómönnum þau laun til baka. Þeir eigi að vísu peningana en kjósa greinilega frekar að leggja þá í taprekstur Moggans.

Allt í góðu með það – er það ekki?

2007 keimur

Kjarninn í ræðu Katrínar Þorgerðar Gunnarsdóttur, fyrrverandi varaformanns og ráðherra sjálfstæðisflokksins í umræðum um erlenda fjárfestingu á Alþingi í dag var þessi:

  • Landið á að vera opið fyrir fjárfestingum
  • Það á ekki að skipta neinu máli hvaðan kaupendur koma
  • Tillögulega hindrunarlaus samskipti og viðskipta á milli þjóða leiða frekar til farsældar fyrir þjóðina en girðingar
  • Höfum vonda reynslu af girðingum og takmörkunum
  • Þýðir ekki að hugsa sem svo að þurfi að þjóðnýta ákveðnar eignir
  • Eigum að segja öllum að landið sé opið fyrir fjárfestingum

Þetta hljómar kunnuglega. Dálítill 2007 keimur reyndar, allt að því óbragð.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS