Pólitískar áherslur umfram annað

Biskup Íslands sagði í nýársprédikun sinni að á undanförnu hefði verið vegið að öryggi landsmanna í heilbrigðismálum. Því hyggðist kirkjan snúa til betri vegar með því að hefja söfnun fyrir tækjakaupum á Landsspítalanum. Það er auðvitað virðingarvert af kirkjunni að láta sig varða um málefni Landspítalans. Björn Zöega forstjóri spítalans bendir einnig á það í þessu sambandi að spítalinn hefur alltaf þurft að reiða sig á gjafafé til rekstrar. Hann bendir einnig á það í pistli sínum stuttu fyrir jóla að í fjárlögum 2013 verði í fyrsta sinn ekki krafist niðurskurðar hjá Landspítalanum frá 2007 þegar „góðærið“ stóð hvað hæst. Björn hefur einnig bent á að brýnt sé „að fjalla um gæða- og öryggismál sjúklinga á faglegan hátt og sem mest út frá gögnum en forðast upphlaup sem hræða sjúklinga, svekkja starfsfólk og eru umfram allt algerlega gagnslaus." Framlög á fjárlögum til tækjakaupa á Landspítalanum drógust hratt og örugglega saman í góðærinu í aðdraganda Hrunsins. Um þetta fjallaði ég í pistli hér á síðunni sl. haust. Meirihluti Alþingis ákvað með fjáraukalögum 2012 að veita 150 m.kr. í tækjakaup á Landspítalnum (bls. 28) og 50 m.kr. til tækjakaup á Sjúkrahúsinu á Akureyri (bls. 27). Á fjárlögum ársins 2013 samþykkti meirihluti þingsins að setja 862 m.kr. í tækjakaup á Landspítalanum (bls. 104) sem er aukning um 600 m.kr. frá því sem var. Í fáum málum skilur jafn rækilega á milli núverandi stjórnvalda og þeirra sem á undan komu en í heilbrigðismálum. Á meðan nóg var til af peningum töldu þáverandi stjórnvöld enga ástæðu til að láta þá renna til tækjakaupa á Landspítalanum eða rekstur hans. Eins og forstjóri spítalans bendir á er tækjavandi hans vandi fortíðar. Rekstur Landspítalans var nærri þrír milljarðar í mínus við Hrunið enda var spítalinn fjárhagslega sveltur í góðærinu. Kirkjan glímdi við ýmis innanmein á góðæristímanum sem riðu henni næstum að fullu. Það kann að skýra að hún sem stofnun hafi ekki verið í færum til að standa vörð um heilbrigðiskerfi landsmanna á þeim tíma eins og hún ætlar sér í dag. Vörnin snýst hinsvegar ekki um peninga nema að hluta til. Sagan segir okkur að það pólitískur vilji ræður þar mestu um.