Þeir eru verri en AGS

Í gær setti ég inn færslu hér á vefinn um að sjálfstæðisflokkurinn myndi reyna allt sem hann gæti til að koma í veg fyrir byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Í dag kemur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér.
Í öllum löndum sem AGS hefur komið að málum hafa stjórnvöld verið rekin til að einkavæða innviði samfélagsins, þ.m.t. heilbrigðis- og velferðarkerfi. Ekkert slíkt gerðist hér á landi. Íslensk stjórnvöld neituðu slíkum æfingum og við það stóð.
Nú er hins vegar komið í ljós að AGS á trausta bandamenn hér á landi í þessum efnum. Þeir Pétur Blöndal og Kristján Þór Júlíusson, þingmenn sjálfsæðisflokksins, hafa farið hamförum gegn fyrirætlunum stjórnvalda um byggingu hjúkrunarheimila fyrir opinbert fé. Þeir ganga svo langt að beita fyrir sig stjórnarskránni í þeim tilgangi. Þeir vita sem er að ríkissjóður er tómur og fé til framkvæmda verður ekki tekið þaðan, enda er þeim málið skylt. Þeir vilja koma í veg fyrir opinberar framkvæmdir í velferðarkerfinu og færa þær yfir til vina sinna í einkageiranum. Þannig eru þeir því að reyna að koma pólitískum vilja sínum fram með því að nýta sér slæmt efnahagsástand til að ráðast í einkaframkvæmdir í velferðarkerfinu.
Mér er til efs að í nokkru landi í hinum vestræna heimi séu til stjórnmálamenn, hvað þá heill stjórnmálaflokkur, sem eru tilbúnir að nýta sér neyð þjóðar sinnar til að ná fram pólitískum markmiðum sínum eins og sjálfstæðisflokkurinn er að reyna með þá Pétur og Kristján í broddi fylkingar.

Þeir eru verri en AGS.