Þögnin ein

Í síðasta áramótablaði Viðskiptablaðsins var viðtal við Davíð Oddsson. Þar hélt Davíð því fram að í símtali sínu við Mervyn King Seðlabankastjóra Bretlands, hefði sá Breski lofað því að fella niður Icesvae-kröfurnar. Áður hafði annar pólitískur syndaselur, Árni Mathiesen haldið því sama fram í bók sinni um hrunið. Um þetta var talsvert fjallað í fjölmiðlum og merkir fræðimenn við Háskóla Íslands tóku málið upp á sína arma og taldi að símtalið góða væri sönnun um guðdómlega stjórnvisku fyrrum Seðlabankastjóra. Í kjölfarið á þessu viðtali upphófst mikill darraðardans hjá sjálfstæðismönnum sem kröfðust þess að fá útprentun á áður nefndu símtali og því sem fram fór á milli þeirra gamla foringja og seðlabankastjóra Breta.

Til að gera langa sögu stutta þá fór það þannig að í janúar sl. fékk fjárlaganefnd, að kröfu fulltrúa sjálfstæðisflokksins í nefndinni, fékk að lesa útskrift af símtalinu sem Davíð hafði áður haldið fram að myndi varpa nýju ljósi að stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og styrkja málstað okkar á alla kanta.

Eftir þann lestur hefur verið algjör dauðaþögn um málið. Sjálfstæðismenn hafa ekki nefnt það einu orði að opinbera ætti samskipti seðlabankastjóranna tveggja. Fræðimaðurinn í háskólanum hefur einnig verið hljóður um málið. Enginn fjölmiðill hefur reynt að grafast fyrir um málið eða fylgja því eftir með nokkrum hætti.

Meira að segja sjálfur höfuðpaurinn, Davíð Oddsson nefnir þetta mál ekki lengur. Enginn sjálfstæðismaður virðist lengur hafa nokkurn áhuga á að gera meira úr þessu máli. Þaðan kemur bara þögnin ein.

Hvernig ætli standi á því?