Sjómannaafslátturinn fer í rekstur Moggans

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins í dag eru íslenskir útgerðarmenn stærstu eigendur Morgunblaðsins.

Allt í góðu með það.

Í fréttinni segir einnig að eigendur blaðsins hafi reitt fram 651 milljón til að kaupa og reka blaðið á árinu 2009.

Allt í góðu með það.

Viðskiptablaðið segir jafnframt frá því að eigendurnir hafi lagt blaðinu til 240 milljónir á árinu 2010 auk þess sem 228 milljónir séu til reiðu inn í félaginu og heimild sé til að hækka hlutaféð um 300 milljónir.

Allt í góðu með það.

Samkvæmt þessu þá hafa eigendur Morgunblaðsins lagt fram samsvarandi upphæð til reksturs Moggans og sjómenn fengu í sjómannaafslátt sem í raun var niðurgreiðsla á launum til útgerða. Útgerðin hefur hinsvegar sagt að hún muni aldrei geta borgað sjómönnum þau laun til baka. Þeir eigi að vísu peningana en kjósa greinilega frekar að leggja þá í taprekstur Moggans.

Allt í góðu með það – er það ekki?