Einn sem kann að skammast sín

Við sátum við eldhúsborðið í hádeginu, ég og konan, kroppuðum í mat og hlustuðum á útvarpið. Þá heyrði ég viðtal við bóndann á Bessastöðum sem sagðist alltaf hafa rétt fyrir sér. Þar á eftir var síðan lesing auglýsingu frá sjálfstæðisflokknum þar sem fram koma efnislega að efnahagshrunið hafi ekki síður verið vel heppnað en afnahagsstefnan sem örakaði það. Allt sem aflaga hefur farið í íslensku samfélagi væri öðrum að kenna en sjálfstæðisflokknum sem nú biði heimilum og fyrirtækjum bjargir við öllum þeirra meinum. 

Þá var mér hugsað til heimilishundsins, hans Mola. Moli er franskur mastiff hundur en sú tegund öðlaðist heimsfrægð í bíómyndinni Turner & Hooch þar sem Tom Hanks fór með hlutverk Turner en hundurinn Beasley með hlutverk Hooch. Tom er enn í fullu fjöri en Beasley hefur fyrir löngu kvatt þennan heim. Þetta eru frábærir hundar, barngóðir og vinalegir en líka stórir og þungir og nokkuð fyrirferðamiklar. Svo kostar slefið úr þeim umtalsverð þrif og önnur óþægindi.

En hvað um það. Fjölskylduhundurinn Moli þekkir stöðu sína betur en margur maðurinn. Það kom t.d. í ljós um daginn þegar ég var að gera grillið klárt, kominn með hamborgarana út og skaust inn til að ná mér í verkfæri. Þegar ég snéri til baka mátti sjá á löngu færi að Moli hafði tekið forskot á sæluna í fullkomnu heimildarleysi. Hann gat ekki leynt því. Sektin skein úr augunum og reyndar voru allir líkamstilburðir hans sama marki brenndir. Hundurinn var ófær um að segja ósatt. Og það sem meira var – hann skammaðist sín, vissi að hann hafði gert eitthvað rangt og bjóst við yfirhalningu - sem hann fékk.

Þetta var það sem mér datt í hug þegar ég hlustaði á útvarpið í hádeginu. 

PS: Nú er það þannig að þegar Moli sér mig vera að gera grillið klárt þá hefur hann hægt um sig, skammast hann sín fyrirfram, man lesturinn sem hann fékk. Ég geri nú ekki þá kröfu til annarra.