Fortíð og framtíð

Ágúst Torfi Hauksson er nýr forstjóri Norðurorku, eins af stærri orkufyrirtækjum landsins. Hann segir í viðtali við nýtt vikublað á Akureyri að hann sé ekki virkjunarsinni, það þurfi að vera glóra í þeim framkvæmdum. Hann segir jafnframt að hann telji að mistök hafi verið gerð vegna Kárahnjúkavirkjunar sem hann hafi verið ósammála um að ráðast í á sínum tíma. Þar hafi verið of langt gengið gagnvart náttúrunni og sú framkvæmd vekji upp spurningar um hvort ríkinu sé treystandi fyrir slíkum verkum. Ágúst Torfi segir sömuleiðis ekki vera viss um að hagsmunum Húsvíkinga sé best borgið með álveri á Bakka, þar sé um mjög dýr störf að ræða og hann telji einnig að nóg sé komið af álverum á Íslandi. Ágúst segist um margt vera sammála því sem Andri Snær Magnússon hefur sett fram í þessum málum m.a. í bók sinni Draumalandið. Þannig talar nýr forstjóri Norðurorku. Af yfirvegun, varfærni og skynsemi – ekki ólíkt því sem heyra hefur mátt frá forstjóra Landsvirkjunar.

Í gær var líka viðtal við formann sjálfstæðisflokksins. Þar kveður við annan tón. Hann sér þá lausn eina að virkja þau vatnsföll sem enn renna óbeisluð. Það sé eina vitið hvað sem það kostar. Virkja virkjunarinnar vegna. Þarna mætast gamli og nýji tíminn. Annarsvegar ungur og vel menntaður forstjóri orkufyrirtækis sem hafnar lausnum gamla tímans og hinsvegar ungur formaður stjórnmálaflokks í fjötrum fortíðar og úrelstra lausna.

Á hvað eigum við að veðja?