Stóra lygin

Geir Hilmar Haarde hefur upplýst okkur um að hann hafi bjargað Íslandi frá þroti. Málsókn á hendur honum fyrir hið gagnstæða er því að röngum rökum reist. Auðvitað! Af hverju erum við ekki búin að átta okkur á þessu fyrr? Við höfum lifað í fullkominni blekkingu í bráðum þrjú ár. Okkur hefur ranglega verið talin trú um að allir íslensku viðskiptabankarnir hafi farið á hausinn, að Seðlabanki landsins hafi orðið gjaldþrota, að verðbólga hafi verið 20% og vextir 18% og gengi krónunnar fallið um helming á meðan Geir var forsætisráðherra, svo fátt eitt sé nefnt. Því hefur verið logið að okkur að atvinnuleysi hafi margfaldast, skuldir heimila sömuleiðis, eigið fé fyrirtækja þurrkast út og sveitarfélög um land allt hangi á horriminni, svo fátt eitt sé nefnt.
Auðvitað er þetta allt tóm lygi. Geir veit það. Geir bjargaði okkur. Hrunið var því bara blekking. Þetta er allt helvítis vinstristjórninni að kenna. Okkur væri nær að reisa Geir styttu, veglegan minnisvarða um hinn fullkomna stjórnmálamann sem bjargaði landinu sínu frá þroti og forðaði þjóð sinni frá þeim hörmungum sem við héldum öll að hefði hent okkur. En var bara tilbúning, farsi. Sem betur fer.
Guð blessi Ísland.