Morgunblaðið - góðan daginn!

Það var fallegt veður á Akureyri í morgun. Reyndar ekki eins hlýtt og vonir höfðu staðið til en sólin skein þó gegn norðanáttinni og reyndi sitt til að rífa hitann upp úr þeirri einu gráðu sem hann var þarna í morguns árið. Það var bjart yfir farþegum á flugvellinum sem biðu fyrsta flugs suður og ekki að sjá að sjómannadagurinn hafði tekið mikinn toll af þeim þó því væri ekki að neita að finna mátti keim af vel heppnaðri helgi ef eftir því væri hnusað. Flugið var notalegt og ekki tók síðra við í Reykjavík þegar þangað var komið. Sól og sumar og þrátt fyrir að golan væri andköld virtust brosviprur vorsins vera að taka á sig mynd af endanlegu sumarbrosi á andlitum borgarbúa.
Þetta leit því allt býsna vel út - en þá var mér litið á forsíðu Morgunblaðsins. Það er eins og Morgunblaðið undir stjórn hins aldna foringja sjálfstæðismanna hafi tamið sér lífsviðhorf þess sem stendur við enda gangnanna og starir inn í myrkrið og kuldann í stað þess að njóta birtunnar og hlýjunnar sem bíður fyrir utan.
Á forsíðunni eru 5 áberandi fyrirsagnir allar í þeim tón að engu verði bjargað og allt sé á hraðri leið til helvítis. Fyrirsagnirnar eru þessar:



  1. KJARASAMNINGAR Í UPPNÁMI

  2. STÓRA MÁLIÐ EKKI AFGREITT Á VORÞINGI

  3. STJÓRNVÖLD DRAGA LAPPIRNAR Í STUÐNINGI

  4. KVÓTAFRUMVÖRPIN SKYGGÐU Á SJÓMANNADAGINN

  5. SPÁIR MINNI SNJÓ OG MEIRA STEYPIREGNI

Ætli sé nokkur von í því að ritstjórn moggans geti einhverntímann átt góðan dag með þjóðinni?