Mikilvægar stórframkvæmdir framundan

Eins og fram hefur komið skiluðu sex aðilar inn gögnum vegna forvals vegna Vaðlaheiðarganga. Nú stendur yfir vinna við að fara yfir þau gögn áður en útboð fer fram og má reikna með því að það geti gerst í byrjun næsta mánaðar ef allt gengur eftir.
Ef af verður er hér um gríðarlega mikilvæga framkvæmd að ræða sem mun skipta miklu máli í samgöngumálum þjóðarinnar og atvinnu- og byggðamálum á norðurlandi. Jarðgöng í gegnum Vaðlaheiði er byggð á lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem þingið samþykkti sumarið 2010. Samkvæmt þeim lögum er jafnframt áætlað að ráðast í aðrar vegaframkvæmdir á suður og suðvestur landi eins og um er getið. Ef af verður hér að ræða framkvæmdir upp á vel á fjórða tug milljarða sem mun hafa góð áhrif í efnahagslegu tilliti auk annars.
Eins og gert er ráð fyrir að framkvæmdir þessar verði kostaðar af vegtollum, þ.e. vegna umferðar um þá vegi sem um ræðir en ekki úr ríkissjóði enda heimila áður nefnd lög ekki annað.
Það er afar mikilvægt að ekkert verði til að tefja þessar framkvæmdir svo þær komist sem fyrst af stað samkvæmt vilja Alþingis eins og hann kemur skýrt fram í lögum þar um.