Don Kí-Saari

Þór Saari þingmaður Hreyfingarinna komst í fréttirnar um daginn þegar hann hélt því fram að ríkisstjórnin gerði í því að koma sér upp ímynduðum grýlum í efnahagsmálum, til þess eins að geta síðan sagst að tekist hefði að fella þær. „Engu líkara sé en að þau berjist við vindmyllur einsog Don Kíkóti forðum daga“, sagði þingmaðurinn og sagði furðulegt að fylgjast með þessu leikriti ríkisstjórnarinnar.
Nú veit ég ekki í hvaða sápuóperu Þór Saari lifir eða hvaða þáttaröð í en hitt veit ég að þjóðin hefur ekki verið að taka þátt í illa skrifuðu leikriti síðustu árin. Fyrir henni er blákaldur veruleikinn nógu erfiður þó svo að hann hafi náð að skjótast framhjá hjá þingmanninum Þór Saari.
Lítum aðeins betur á þær vindmillur sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur verið að slást við á síðustu tveim árum.
Svona var staðan fyrir sléttum tveim árum þegar ríkistjórnin tók við hruni hægrimanna: 



  • Bankakerfið hrunið

  • Gjaldeyrisforði til 2 mánaða til í landinu

  • Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kominn til landsins

  • Hryðjuverkalög sett á Ísland

  • Eignir Íslendinga erlendis kyrrsettar

  • Ísland einangrað á erlendum fjármálamörkuðum

  • Gjaldeyrishöft

  • Verðbólga 20%

  • Stýrivextir 18%

  • Krónan fallin um 50%

  • Halli á ríkissjóði upp á 216 milljarða

  • Vaxtagreiðslur ríkissjóðs yfir 100 milljarðar

  • Algjört tekjufall ríkisins

  • Eigið fé fyrirtækja horfið

  • Eigið fé heimila horfið

  • Skuldir heimila upp úr öllu valdi

  • Atvinnuleysi margfalt frá fyrri árum 

Þetta eru nú vindmillurnar sem ríkisstjórnin og þjóðin öll hefur verið að slást við á undanförnum tveim árum og er þá langt því frá allt upp talið.
Enda segir Þór Saari Ísland nú vera á hraðri leið í gjaldþrot eins og svo oft áður.
Varla byggir þingmaðurinn þá skoðun sína á ímynduðum vanda þjóðarinnar – eða hvað?