Hversu skaðlegur er forsetinn?

Eins og allir vissu og vita sem vilja, stefndi allt í það að eignir þrotabús Landsbankans myndu standa undir Icesave-ósómanum. Ein verðmætasta eign búsins er verslunarkeðjan Iceland Foods í Bretlandi en þrotabúið á tæplega 70% í keðjunni. Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því í Financial Times að búist væri við að um 2 milljarðar punda fengjust fyrir Iceland Foods eða um 370 milljarðar króna.
En þá gerðu menn ekki ráð fyrir forseta Íslands.
Nú er sagt frá því í erlendum fjölmiðlum að forsetinn, með framgöngu sinni í erlendum miðlum, sé að þrýsta á sölu á eignum búsins sem aftur hefur orðið til þess að fjárfestar hafa kippt að sér höndunum og bíði verðlækkunar. Framganga forsetans í erlendum fjölmiðlum mun því væntanlega verða til þess að minna fáist fyrir eignirnar en ráð var fyrir gert og eftirstöðvar og vextir hærri sem því nemur.
Samkvæmt 11.gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er forsetinn ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.Hann hefur hinsvegar vald og vald án ábyrgðar getur verið hættulegt. Þetta ætti að útskýra fyrir erlendum fjölmiðlum.
Það er því ekki spurning um hvort forseti Íslands er skaðlegur íslensku þjóðinni í þessu máli – heldu hversu mikið.