Sjálfstæðisflokkurinn biður þingið um traustsyfirlýsingu

Sjálfstæðisflokkurinn er spilltasti stjórnmálaflokkur í sögu lýðveldisins. Fingraför hans eru út um allt samfélagið. Flokksmenn hans í ábyrgðastöðum eru dæmdir fyrir misferli og fyrrverandi formaður hans bíður dóms fyrir Landsdómi, fyrstu stjórnmálamanna. Mál tveggja fyrrverandi ráðherrar flokksins ásamt einum ráðuneytisstjóra úr þeirra röðum, vegna misbeitingu valds, var flutt fyrir Hæstarétti Íslands á dögunum. Þingmenn flokksins hafa orðið uppvísir að því að þiggja háar greiðslur frá stórfyrirtækjum í landinu. Þeir hafa sumir vikið af þingi á meðan mál þeirra eru til rannsóknar og eru ekki enn allir komnir til baka. Flokkurinn sjálfur er að endurgreiða að hluta til stærstu og mestu greiðslur sem vitað er um að nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur hafi þegið. Fyrrverandi formaður flokksins stjórnaði Seðlabanka þjóðarinnar í fullkomið gjaldþrot. Í kjölfar átján ára þrotlausrar setu flokksins í fjármálaráðuneytinu rambaði íslenska ríkið á barmi gjaldþrots. Eftir átján ára forystu flokksins í landsmálunum eru íslensk heimili og fyrirtæki kafskuldug og vanmáttug til verka og atvinnuleysi í þeim hæðum sem ekkert okkar trúði að nokkurn tímann gæti orðið. Í kjölfar átján ára stjórnar sjálfstæðisflokksins er Ísland haft að háði og spotti á erlendum vettvangi, rúið trausti okkar helstu vinaþjóða og stendur í illdeilum við aðrar þjóðir.
Það eru rúm tvö ár síðan sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum eftir hrun íslenska efnahagslífsins. Það er eitt ár síðan skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út en þar er stjórnmálasaga flokksins og afleiðinga hennar fyrir íslenska þjóð skráð í níu tölusettum bindum. Aldrei áður hefur þótt ástæða til þess hér á landi að setja á fót sérstaka rannsókn á afleiðingum stjórnarfars nokkurs stjórnmálaflokks en sjálfstæðisflokksins.
Eftir þann tíma hafði Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins þetta að segja um íslensk stjórnmál:
„Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Þá biður sjálfstæðisflokkurinn þingið um traustsyfirlýsingu.