Borubrött stjórnarandstaða - án innistæðu

Fjármálaráðherra svaraði í dag fyrirspurn minni um annarsvegar kostnað við einkavæðingu Landsbanka Íslands á sínum tíma og hinsvegar um kostnað við síðasta Icesave-samninginn sem felldur var í atkvæðagreiðslu um helgina. Í stuttu máli er beinn kostnaður vegna nýja samningsins ríflega 369 milljónir og framreiknaður kostnaður við einkavæðingu Landsbankans 334 milljónir króna. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem vert er að skoða aðeins betur.
Kostnaðurinn við einkavæðingu nam um 1,1% af áætluðu söluandvirði bankans en eins og kunnugt er var kaupverðið aldrei greitt að fullu. Kostnaður við einkavæðinguna er að mestu vegna ráðgjafar sem ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar keypti til að koma stjórnarstefnu sinni í framkvæmd sem m.a. fólst í því að selja bankann. Líklega hefur engum peningum hér á landi verið verr varið en þessum 334 milljónum í ljósi þeirra afleiðinga sem það hefur síðan haft.
Kostnaðurinn við Icesave-samninganefndina er hinsvegar alveg á hinum enda málsins, þ.e. kostnaður vegna afleiðinga þess sem salan á bankanum (ef sölu má kalla) hefur haft á íslenskt samfélag. Að kröfu þingmanna sömu flokka og einkavæddu Landsbankann á sínum tíma og kostuðu til þess 334 milljónum, var einn færasti samningamaður heims (að þeirra áliti) ráðin til að leiða samninganefndina. Að kröfu þingmanna framsóknar- og sjálfstæðisflokks skipuðu þeir fulltrúa sinn og trúnaðarmann, Lárus Blöndal í samninganefndina auk þess sem orðið var við öllum kröfum þessara flokka um ráðgjöf í málinu. Allir þessir aðilar unnu verk sitt af kostgæfni og skilu góðu verki þó svo að stór hluti stjórnarandstöðunnar hefi snúist gegn málinu með einum eða öðrum hætti á lokasprettinum og þannig skilið þess fulltrúa sína í samninganefndinni eftir á pólitískum berangri. Kostnaður vegna samninganefndarinnar árið 2009 var tæpar 80 milljónir.
Einkavæðing Landsbankans varð okkur íslendingum dýr þegar upp var staðið. Það á ekki aðeins við um kostnaðinn sem ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðisflokks reyddi af hendi við að koma einkavæðingarstefnu sinni í framkvæmd. Kostnaðurinn við að leysa úr þeim vanda sem sú stjórnarstefna leiddi yfir þjóðina hefur sömuleiðis kostað íslenska þjóð hár upphæðir. Það á sömuleiðis ekki eingöngu við um kostnað vegna samningana um málið.
Samtals hefur því beinn kostnaður við þetta mál, í báða enda, kostað íslendinga um 800 milljónir króna. það er svo sem ekki há upphæð í hinu stóra samhengi. En hvorutveggja er þó kostnaður sem hefur þurft að greiða af kröfu sömu flokka, framsóknar- og sjálfstæðisflokks. Þessir flokkar brugðust því þjóðinni þegar þeir einkavæddu bankanna og þeir brugðust henni aftur þegar leysa þurfti úr afleiðingum einkavæðingarinnar. Með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðina og enn meiri leiðindum.
Það er ekki nema von að þeir séu borubrattir.