Er málflutningur Heimssýnar að skaða ESB andstöðuna?

Heimssýn er hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum- þverpólitísk samtök þeirra sem eins og getur um á heimasíðu þeirra, „telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.“ Þetta er nokkuð skýrt og á ekki að fara framhjá nokkrum manni. Heimsýn er félagsskapur þeirra sem vilja ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þannig hef ég líka alltaf litið á þennan félagsskap og hef lengst af fundið samhljóm með þeim til þess máls. Á undanförnum misserum hefur hinsvegar myndast vík á milli vina og ég finn mig æ oftar í andstöðu við þennan annars ágæta klúbb sem lagði af stað með göfug markmið. Það hefur valdið mér talsverðum áhyggjum að fylgjast með framgöngu talsmanna Heimssýnar að undanförnu, aðallega vegna þess að mér hefur fundist þeir vinna málstaðnum frekar ógagn en gagn á mörgum sviðum. Það er á stundum nánast eins og upphaflegt markmið samtakanna um að vera upplýsandi vettvangur fyrir andstöðuna við ESB sé fyrir bí, týndur og tröllum gefin og annað tekið við. Meira ber á því að Heimssýn gangi erinda tiltekinna afla í þjóðfélaginu sem endurspegla ekki þá fjölbreyttu flóru lífs- og stjórnmálaskoðana sem upphaflega stóðu að baki samtökunum.
Dæmi um þetta má finna í nýlegri bloggfærslu Heimssýnar. Í honum er ýjað að því að peningar frá Björgólfi Thor Björgólfssyni renni til grasrótarhreyfingar sem kallar sig Áfram en sú hreyfing berst fyrir staðfestingu hagstæðum Icesave samningi þann 9. apríl næstkomandi. Engin rök eru færð af hálfu Heimssýnar fyrir þessari meintu peningagjöf  heldur markast færslan fyrst og fremst af hraustlegum skammt af ólæknandi vænisýki. Þess fyrir utan er ekki nokkur leið að átta sig á því hvers vegna samtökin Heimssýn skyldu bera þetta upp á önnur samtök sem koma baráttu Heimssýnar nákvæmlega ekkert við. 
Í þessu sambandi má benda á ágæta grein Ingvars Gíslasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra og félaga í Heimssýn, þar sem hann fjallar um núverandi Icesave samning og lýsir afstöðu sinni til þeirra með eftirfarandi hætti: „Ef samningaleiðin er farin hafa íslensk stjórnvöld vald á málsmeðferð með virkum hætti að sínu leyti, eða eins og gerist í samningaviðræðum. Núverandi samningur í Icesavemálinu felur í sér viðunandi lausn deilunnar, tryggir góð málalok. — Fráleitt er að túlka samninginn sem "aðgöngumiða að Evrópusambandinu". Þar er blandað saman óskyldum málum.“
Þetta er auðvitað hárrétt hjá Heimssýnarmanninum og fyrrum ráðherranum, Ingvari Gíslasyni
Æði margir sem hafa verið innan Heimssýnar um langt skeið og fylgst með starfi þess taka sjálfsagt undir með Ingvari og myndu bæta við að félagsskapurinn er of oft farinn að blanda saman óskyldum málum. Þar á bær virðist tilgangur fremur að skemmta skrattanum en að standa að baki málefnalegri og upplýsandi umræðu um ESB andstöðu.
Sú spurning á því orðið fyllilega rétt á sér hvort ekki sé komin tími fyrir þá sem vilji málefnalega umræðu um samskipti Íslands við ESB, að skapa sér nýjan vettvang til að takast á við umræðuna í stað þess sem Heimssýn er að bjóða upp á.