Það er allt að fara til helvítis

Hlustaði á upphaf á þætti Sigurjóns M. Egilsson, Á Sprengisandi, í morgun. Hann sagði að það væri allt að fara til helvítis hér á landi. Við stefnum óðfluga í átt til ævarandi fátæktar, almenns gagnsleysis og til heljar á öllum sviðum. Hann studdi það reyndar engum rökum en flutti mál sitt samt af miklum sannfæringarkrafti. Ekki ólíkur sjónvarpsprédikara í sérstrúarsöfnuði sem sér að framlög til safnaðarins hefa dregist saman og kann þá það eina ráð að hræða fólk til greiðslu.
Ég þekkti mann einu sinni sem var oft frekar svartsýnn á lífið og tilveruna, sérstaklega á morgnanna. Þegar verst lét sagði hann stundum að það væru aðeins tvær leiðir út úr vandanum sem hann þóttist sjá í vændum: Að skjóta sig eða hengja sig.
Ég vona að hann hafi ekki verið að hlusta í morgun.
Ég setti hinsvegar Eagles í spilarann og skúraði yfir íbúðina.