Framsókn er að einangrast í íslenskum stjórnmálum

Svo virðist sem forysta framsóknarflokksins sé að einangrast í Icesave-málinu. Eins og kunnugt er sátu tveir þingmenn flokksins, Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, hjá við atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi á en forystusveit flokksins, formaðurinn, varaformaðurinn og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd hafa hinsvegar verið ákafir andstæðingar þess að leysa málið. Nú hefur Siv Friðleifsdóttir lýst því yfir að hún muni styðja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki þætti mér ólíklegt að Guðmundur Steingrímsson gerði slíkt hið sama. Formaður flokksins lýsir því hinsvegar yfir í fjölmiðlum að hann muni beita sér gegn málinu fram að kosningu og mælast til þess að þjóðin felli það. Aðrir flokkar á þingi hafa lýst yfir stuðningi við málið og munu beita sér fyrir því að það verði samþykkt.
Það er því ljóst að framsóknarflokkurinn er undir öruggri leiðsögn formanns og forystusveit flokksins að einangrast algjörlega í þessu máli eins og reyndar fleirum.