Þarf að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu?

Þarf að breyta lögum um stjórn fiskveiða?
Já, þess þarf án nokkurs vafa. Stjórnkerfi fiskveiða, sk. kvótakerfi hefur klofið þjóðina í tvær andstæðar fylkingar á síðustu áratugum og ekkert sem bendir til þess að þær deilur verði til lykta leiddar nema sanngjarnar breytingar verði gerðar á lögunum.
Hverju þarf þá að breyta?
Það þarf að vera algjörlega skýrt og hafið yfir allan vafa að fiskistofnarnir við landið eru sameign íslensku þjóðarinnar. Samningar um nýtingu auðlindarinnar þurfa að vera tímabundnir, aðgangur að henni takmarkaður við tiltekin skilyrði og þeir sem nýtingarréttinn fá greiði sanngjarnt gjald fyrir aðganginn.
Hvað á rétturinn til að nýta fiskistofnana að vera bundinn til langs tíma?
Tíminn þarf að vera nægilega langur til að þeir sem gera samning um nýtingu geti fjármagnað rekstur sinn, viðhaldið og endurnýjað búnað, gert samninga um sölu afurða o.fl. slíkt.
Hverjir eiga rétt á að nýta fiskistofnana við landið?
Þeir sem þegar hafa nýtingaréttinn hljóta að hafa þar forgang umfram aðra. Þann forgang hafa þeir áunnið sér með því að nýta auðlindina á undanförnum áratugum. Nýta þarf aukin hluta aflaheimilda til byggða- og atvinnutengdra nota víðsvegar um landið enda hefur það alla tíð verið markmiðið að nýta auðlindir sjávar til að efla byggð og atvinnu allt í kringum landið.
Hvað á gjaldið að vera hátt sem greiða á fyrir nýtingaréttinn?
Upphæðin er ekki stóra málið. Mikilvægast af öllu er að vernda fiskistofan og nýta þá með sem arðbærustum hætti fyrir samfélagið allt. Aðalmálið er að sjávarútveginum verði tryggð rekstrarskilyrði til langs tíma og skili þjóðinni tekjum með gjaldi af nýtingu auðlindarinnar og rekstri sínum.