Engin þrettándabrenna í ár!

Ekkert verður af þrettándagleði á Akureyri þetta árið, samkvæmt því sem fram kemur á dagskránni.is eins en jólin hafa verið kvödd með þrettándabrennu og skemmtilegheitum á þrettándanum með þeim hætti á Akureyri í 76 ár, með örfáum undantekningum. Ástæðan mun vera sú að ekki tókst að fjármagna framkvæmd gleðinnar að þessu sinni en íþróttafélagið Þór sem staðið hefur að þrettándagleðinni, hefur þurft að greiða með skemmtuninni síðustu árin og getur það ekki lengur.
Það eru frekar daprar fréttir og svo sannarlega ekki til að gleðja þá sem hafa lagt það í vana sinn að kveðja jólin með þessum skemmtilega hætti. Ég hef ekki nokkra hugmynd um hvað kostar að halda þrettándagleðina en geri mér grein fyrir því að um einhver fjárútlát hlýtur að vera að ræða af hálfu Þórs sem félagið getur ekki staðið undir að þessu sinni.
En hvar er allt ríka fólkið á Akureyri, fyrirtækin og aðrir þeir sem ættu að eiga tiltölulega auðvelt með að láta fé af hendi rakna til slíkra mála? Margir slíkir eru duglegir að styðja við bakið á íþrótta- og félagslífi íþróttafélaganna í bænum eins og dæmin sanna. Hefði ekki verið tilvalið fyrir einhverja þannig innréttaða að sjá til þess að viðhalda þessari skemmtilegu hefð sem þrettándagleðin á Akureyri er þegar orðin?
Kannski eru bara allir blankir eftir jólin?