Sjálfstæðismenn afneita skatta fortíð sinni

Sjálfstæðismenn gagnrýna ríkisstjórnarflokkana harðlega fyrir skattahækkanir og niðurskurð í útgjöldum ríkisins. Segja þetta bera feigðina í sér og jafnvel dauðann sjálfan, segir Kristján Þór Júlíusson um fjárlagafrumvarpið og vísar þá til skattahækkana og niðurskurðar, sem hann er alfarið á móti. Sjálfstæðismenn hafa líka lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem fram kemur að þeir vilja afnema allar skattahækkanir sem gripið hefur til frá hruninu, að fullu, eins og segir í tillögu þeirra.
Málatilbúnaður þeirra er athyglisverður í ljósi þeirra aðgerða sem þeir sjálfir gripu til í kjölfar hrunsins haustið 2008. Þá endurskoðuðu þeir það fjárlagafrumvarp sem þá var í meðförum Alþingis og skáru niður á bæði borð í útgjöldum. Og þeir gripu til skattahækkana. þann 12. desember 2008 tóku eftirfarandi skattar gildi samkvæmt tillögum meirihluta sjálfstæðismanna og Samfylkingar á Alþingi:


Tekjuskattur einstaklinga - hækkun um 1,35%
Almennt bensíngjald - hækkun um 12,5%
Sérstakt bensíngjald - hækkun um 12,5%
Olíugjald - hækkun um 12,5%
Kílómetragjald - hækkun um 12,5%
Áfengisgjald á bjór - hækkun um 12,5%
Áfengisgjald á léttvín - hækkun um 12,5%
Áfengisgjald á sterk vín - hækkun um 12,5%
Tóbaksgjald - hækkun um 12,5%
Bifreiðagjald - hækkun um 12,5%


Nú vilja þeir sjálfstæðismenn ekki tala um þessi fyrstu viðbrögð sín við efnahagshruninu, almennar skattahækkanir og láta sem þeir séu pólitískt óspjallaðir og bera af sér allar sakir um ábyrgð af hruninu eða afleiðingum þess og afneita að auki eigin verkum eins og hér sést.
Það sem vekur þó mesta athygli í þeim skattahækkunum sem sjálfstæðismenn stóðu fyrir er að sjá hvaða skatta þeir hækkuðu ekki. Þeir hækkuðu ekki fjármagnstekjuskatt, ekki tekjuskatt á fyrirtæki, þeir settu ekki á sérstakan skatt á há laun og þeir lögðu ekki á auðlegaðarskatt á stóreignafólk eins og nú hefur verið gert. Af þessu má læra tvennt: Sjálfstæðismenn sáu það eins og allir aðrir að þegar á reyndi var skattkerfið þeirra ófært um að mæta efnahagslegum áföllum og því fóru þeir í að hækka skatta. Hitt er að þeir hlífðu stóreignafólki, hátekjufólki og fyrirtækjum við skattahækkunum en létu þess í stað jafnt yfir alla ganga í skattahækkunum sínum með því að fara í almennar hækkanir á ýmsum gjöldum.
Skattatillögur þeirra í dag ganga út á það sama eins og sjá má í þingsályktunartillögu þeirra og vitna um að sjálfstæðisflokkurinn hefur þrátt fyrir kreppu, landsfund, nýjan formann, nýjan varaformann, nýja forystu og breytta ásýnd – ekkert lært af reynslunni.