Á hvaða leið er kirkjan?

Á Íslandi eru í gildi lög sem heita Barnaverndarlög. Í fyrstu málsgrein fyrstu greinar þeirra laga eru markmið þeirra skýrð með þessum orðum: „Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.“ Í annarri málsgrein segir að allir þeir sem hafa ummönnum barna með höndum skuli sína þeim virðingu og umhyggju og með öllu sé óheimilt að beita börn ofbeldi. Fjórði kafli laganna fjallar um tilkynningarskyldu og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld. Um það segir m.a. í 16.gr.: „Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.“ Í 17.gr. Barnaverndarlaga er síðan fjallað um það hverjum beri sérstök skylda að tilkynna um illa meðferð á börnum. Um það segir: „Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.“

Þetta er nokkuð skýrt að mínu viti. Sú ótvíræða skylda hvílir á hverjum einasta manni að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða hafi orðið fyrir ofbeldi af nokkru tagi. Þó þykir ástæða til að tiltaka sérstaklega ákveðnar stéttir sem hafa með umönnum barna að gera, þ.m.t. presta. Til frekari áréttingar er skýrt tekið fram að þetta ákvæði gangi framar ákvæðum laga og siðareglum starfsstétta.

Í þessu ljósi er hreint ótrúlegt að fylgjast með umræðum innan kirkjunnar um þessi mál. Presta, sem sérstakir trúnaðarmenn barna halda því blákalt fram að þeir séu undanþegnir lögum um vernd barna og að þeim beri frekar að hlýða guði en mönnum í þessum efnum. Því er jafnvel haldið fram að þagnarskyldan sé aukameðferðarúrræði fyrir börn sem beitt hafa verið ofbeldi, eins og minn gamli prestur Úlfar Guðmundsson vill meina að sé. Hversvegna ætti kirkjan að læsa slík mál innan sinna veggja í stað þess að koma þeim undir manna hendur?? Að ekki sé nú talað um þegar slík mál snúa að börnum. Fréttir af viðbrögðum kirkjunnar við kynferðislegu ofbeldi presta benda ekki til þess að kirkjan sé í stakk búinn til að höndla með slík mál. Sem betur fer eru prestar innan kirkjunnar sem líta málin öðrum augum og snúast ætíð til varnar börnum þegar þess þarf. Séra Sigríður Guðmarsdóttir, uppáhalds presturinn minn, talar t.d. skýrt um þessi mál, m.a. í prédikun í kirkjunni sinni á dögunum og víðar. „Barnaníð á aldrei að hafa forgang yfir barnavernd hver sem í hlut á og því er hvert og eitt okkar undir tilkynningaskyldu til barnaverndar ef okkur grunar að líf og heilsa barns sé í veði.“ Svo segir Sigríður Guðmarsdóttir og fleiri prestar hafa tekið í sama streng, líkt og séra Bára Friðriksdóttir.

Kirkjan virðist ekki ráða við sín innri mál og engu líkara er en að hún sé að ýmsu leiti að slitna úr sambandi við þjóðina. Um það eru mörg nýleg dæmi líkt og sjá má m.a. hér og hér.

Kirkjan fær háar upphæðir af fjárlögum hvers árs til starfsemi sinnar, rúma 5 milljarða ef ég man rétt á yfirstandandi ári. Þeir sem með fjárveitingarvaldið fara hljóta að líta til framgöngu kirkjunnar að undanförnu í því sambandi.