Hversvegna ætti Gylfi að segja af sér??

Umræða um álit lögfræðistofunnar Lex á lögmæti lána tryggðra í erlendri mynt er orðin ansi farskennd En hvað hefur verið sagt um máli sem kallar á svo dæmalaust vitlaus viðbrögð? Skoðum það aðeins.

Í minnisblaði Sigríðar Logadóttur yfirlögfræðings Seðlabanka Íslands dagsettu 18. maí 2009 segir hún eftirfarandi um málið: „Í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Seðlabankann er dregin sú ályktun að það hafi verið beinlínis tilgangur laga nr. 38/2001 að taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum væri aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Þar með var lagt bann við því að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum á grundvelli gengis erlendra gjaldmiðla. Hins vegar var með þessu ekki verið að banna lántökur í erlendri mynt. ... Undirrituð tekur undir lögfræðiálitið. Hafa verður þó í huga að ekki eru allir lögfræðingar sammála um þessa túlkun og munu dómstólar eiga síðast orðið reyni á álitaefnið fyrir dómstólum sem allt virðist stefna í að geri." Yfirlögfræðingur Seðlabankans bendir þarna á að lögfræðilegur ágreiningur sé um málið sem ekki verður leystur nema fyrir dómstólum.

Í minnisblaði Sigríðar Rafnar Pétursdóttur lögfræðings Viðskiptaráðuneytisins frá 9. júní 2009 reifar hún málið og kemst að sömu niðurstöðu og kollega sinn í Seðlabankanum: „Hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki fæst séð að önnur löggjöf komi til álita í þessu samhengi og er það því niðurstaða undirritaðrar að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmætar.   Lög nr. 38/2001 taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum er aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Hins vegar kann það að vera álitaefni hvort lánssamningur er raunverulega í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Niðurstaða veltur á atvikum hverju sinni, efni samnings og atvikum við samningsgerð og eiga dómstólar lokaorðið um hana."

En hvað segir Gylfi Magnússon á Alþingi 1. júlí 2009 og gerir það að verkum að stjórnarandstaðan kallar eftir afsögn hans: „Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.“

Með öðrum orðum: Allir þeir sem hafa tjáð sig um málið eru þeirra skoðunar (eðlilega) að ágreiningur sé um málið sem ekki verður leystur nema fyrir dómstólum. Það sé ekki á valdi Seðlabankans, Viðskiptaráðuneytisins, Gylfa Magnússonar né lögfræðistofa úti í bæ að skera úr um ágreining sem þennan, heldur dómstólanna. Enginn þeirra þingmanna sem tók þátt í umræðum á Alþingi um þetta mál á þessu ágæta sumardegi árið 2009 gerði athugasemd við þau orð viðskiptaráðherra. Meðal þeirra voru bæði formaður og varaformaður framsóknarflokksins, þingflokksformaður auk framtíðar formanns flokksins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður sjálfstæðisflokksins spyr viðskiptaráðherra í umræðunni hvort hann telji "lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa." Hann svara því skýrt, rétt eins og lögfræðingar Seðlabankans og Viðskiptaráðuneytisins gera: Það er dómstóla að skera úr um þann vafa.

Af hverju ætti einhver að segja af sér vegna þess??