Ríkisstjórn Vinstri grænna tekur við völdum

Það er ánægjulegt að sjá hve víðtækur stuðningur er innan flokksráðs Vinstri grænna við ríkisstjórnarsamstarfið. Um 80% flokksráðsmanna greiddu atkvæði með þeim sáttmála sem gerður hefur verið á milli flokkanna þriggja og aðeins 15 fulltrúar lögðust gegn því að Vinstri græn færu í ríkisstjórn.
Tveir þingmenn sem í raun höfðu þegar helst úr lestinni fyrir nokkrum vikum ítrekuðu andstöðu sína við myndun ríkisstjórnarinnar á fundinum í kvöld. Það er erfitt að ímynda sér að þau tvö muni starfa áfram í þingflokknum enda þurfa öll mál ríkisstjórnar að fá umræðu og afgreiðslu innan þingflokka ríkisstjórnarinnar og um þau mál þarf að ríkja trúnaður.
Hvað sem þessu líður má Katrín Jakobsdóttir vera ánægð með þann stuðning sem hún fékk í kvöld frá flokksráði. Það veit á gott.
Ríkisstjórn Vinstri grænna tekur til starfa á morgun!