Ég skil eiginlega hvorki upp né niður í þessu máli. Hvernig getur það gerst að yfirvöld meini ungu fólki aðgang að opinberum skólum? Hvernig má það vera að sextán ára unglingum sem þarfnast aðstoðar umfram aðra er neitað um skólavist? Hvað er átt við þegar sagt er að engin úrræði séu til staðar eða að ráðuneytið leiti lausna í málinu? Er lausnin týnd? Hver týndi henni?
Þetta nær ekki nokkurri átt.
Úrræðið sem sagt er að ekki sé til staðar er fyrir hendi og heitir skóli. Lausnin sem sögð er vera týnd er aðgangur að skóla sem er til staðar. Það eru nægir peningar til að kosta nám þessara ungmenna ef vilji er til þess. Þetta er ekki flókið né erfitt og þarfnast hvorki sérstakra úrræða né nýrra lausna.
Yfirvöld eiga að sjá til þess án nokkurra skilyrða, sérlausna eða sérstakra úrræða að þessir drengir sem og aðrir í sambærilegri stöðu fá umsvifalaust aðgang að skóla þar sem þeir fá kennslu sem þeir eiga skýlausan rétt á eins og öll önnur ungmenni.
Það er einfaldlega ekki hægt að sætta sig við svona lagað. Hvorki af hálfu þeirra sem málið varðar og enn síður okkar hinna sem eigum að sjá til þess að þessi mál séu alltaf í góðu lagi.
Við berum ábyrgð hvert á öðru.
Er það ekki annars?