Þau hljóta að kannast við krógann

Uppsagnir starfsfólks HB-Granda á Akranesi eru áfall fyrir þá sem fyrir þeim verða. Það verður að vona að á þeim tíma sem framundan er þar til þær taka gildi takist að finna starfsfólkinu önnur störf hvort sem það er innan fyrirtækisins eða annars staðar.
Ráðherrarnir, Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafa verið í forystu þeirra sem hafa staðið fast gegn öllum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða í gegnum árin. Nú eru þau ýmist sorgmædd og reið eða finnst staðan á Akranesi sár og erfið. Þorgerður Katrín lýsti því svo yfir í gær að hún myndi verja kvótakerfið sjálft með kjafti og klóm en hún vildi auka gjaldtöku í sjávarútvegi. Hvernig það á að leysa málið er enn óútskýrt af hennar hálfu.
Vonandi verða ólympískar óábyrgar og stjórnlausar fiskveiðar aldrei aftur stundaðar við Ísland. Sá tími er líka liðinn að fiskur verði aftur veiddur og unninn frá hverju sjávarþorpi á Íslandi í sama magni og áður. En það þarf ekki að þýða að atvinna fólks þurfi að vera í uppnámi og þorpin og bæirnir allt í kringum landið lendi í erfiðleikum. Stjórnmálamenn brugðust þessum aðilum við upphaf kvótakerfisins með því að gera ekki ráðstafanir vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar skipa og óhjákvæmilegrar samþjöppunar í sjávarútvegi. Og þeir eru enn að bregðast fólki í sjávarbyggðunum, ekki síst þau Jón Gunnarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þeir sem nú lýsa óánægju sinni með stöðuna á Akranesi ættu að beina henni til þeirra en ekki HB-Granda. Fyrirtækið vinnur eftir leikreglum sem þau bera ábyrgð á.
Þau hljóta að kannast við krógann.