Sjávarútvegurinn til fyrirmyndar

„Kvótakerfið er sennilegast eitt stærsta skref í umhverfismálum sem stigið hefur verið, hvort sem andstæðingar þess vilja viðurkenna það eða ekki.“
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar (bls. 6)

Það er margt til í þessu hjá Gunnþóri. Reyndar má segja að allar aðgerðir sem gripið hefur verið til á undanförnum áratugum til verndar á fiskistofnum séu aðgerðir í umhverfismálum. Allar hafa þær það að markmiði að hefta aðgang að takmarkaðri auðlind sem fiskistofnar eru, auka verðmæti og draga úr kostnaði við nýtingu. Í dag eru fiskistofnar við landið nýttir af mun færri skipum en áður með minni tilkostnaði og verðmæti á hvert veitt kíló hefur aukist gríðarlega. Þessu til viðbótar hefur orðið vitundarvakning hjá sjómönnum og útgerðarmönnum varðandi umgengni við hafið. Meðferð á fiski er allt önnur en var. Skip koma nú með allan úrgang í land utan lífræns og engum dettur lengur í hug að henda ónýtum veiðarfærum, vírum og öðru drasli í sjóinn líkt og áður.
Stærstu og varanlegustu skref sem tekin hafa verið í umhverfismálum á Íslandi hafa verið tekin innan sjávarútvegsins sem fleiri atvinnugreinar mættu taka sér til fyrirmyndar.