Ekki allt sem sýnist á kærleiksheimilinu

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði í síðasta mánuði að forveri hans og frændi í embætti hefði ekki verið sá baráttumaður gegn skattsvikum sem þjóðin hefði þurft á að halda. Í dag gekk Benedikt svo skrefinu lengra og sagði frænda sinn og forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra hafa klúðrað tækifærinu til að afnema höftin að fullu í fyrra og sagði það umtalað í fjármálaráðuneyti þeirra frænda. Forsætisráðherrann var ekki par ánægður með uppljóstrun frænda og setti rækilega ofan í við hann í þingræðu í dag, sagði hann fara með eftiráspeki og að hann sneri allri röksemdarfærslu á hvolf.
Það er fáheyrt, ef ekki einsdæmi að forsætisráðherra og fjármálaráðherra takist á af svo mikilli hörku fyrir opnum tjöldum og þeir frændur gerðu í dag.
Það er greinilega ekki allt sem sýnist á kærleiksheimilinu.

Mynd: Pressphoto.is