Stefnuleysi um fjármálakerfið

Stjórnmálaflokkar, sem eiga þingmenn á Alþingi, hafa fæstir nokkra stefnu í því hvernig banka- og fjármálakerfið okkar eigi að vera. Í rauninni má segja að aðeins Vinstri græn og sjálfstæðisflokkurinn hafi mótað ákveðna stefnu í þessum málum.
Vinstri græn samþykktu á landsfundi haustið 2015 að aðskilja yrði fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi annars vegar og hins vegar innlenda- og erlenda starfsemi bankanna. Vinstri græn telja rétt að ríkið selji eignarhluti sína í bönkunum að undaskildum Landsbankanum þar sem ríkið verði aðaleigandi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá stefnu að almenningur eigi annars vegar að eignast „álitlegan hlut“ í bönkunum en að öðru leyti verði eignarhlutir ríkisins í þeim seldir.
Framsóknarflokkurinn vill að Landsbankinn verði „eign þjóðarinnar“, eins og það er orðað, og að gerðar verði róttækar breytingar á fjármálakerfinu án þess að útskýra frekar hvað í því felst.
Samfylkingin er mjög óljós í sinni stefnu, talar um þjóðarbanka og aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptahluta bankanna en segir ekkert um sölu eða ráðstöfun á eignarhlutum ríkisins í þeim.
Ekki er í fljótu bragði að finna nokkuð um þessi mál á heimasíðum PírataBjartrar framtíðar eða Viðreisnar.
Það er umhugsunarvert að stór hluti stjórnmálaflokka á Íslandi virðist ekki hafa mótaða stefnu í því hvernig fjármálastarfseminni í landinu skuli háttað, ekki síst þar sem þetta skiptir almenning í landinu gríðarlega miklu máli. Á meðan vinna stjórnvöld að því hörðum höndum að einkavæða hluti sína í bönkunum að því er virðist án mikillar fyrirstöðu.
Hvernig ætli standi á þessu?