Lyginni líkast

Sagt er frá því á visi.is í morgun að sala á helmingshlut í Arion banka sé á lokametrunum. Kaupendurnir eru að stærstum hluta erlendir vogunarsjóðir.
Þegar ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðisflokks samdi við kröfuhafa um uppgjör á föllnu bönkunum árið 2015 var það m.a. gert þannig í tilviki Kaupþings að kröfuhafar greiddu ríkinu með 84 milljarða króna skuldabréfi með veði í Arion banka. Það bréf var háð þeim skilyrðum að ríkið gæti aðeins innleyst það ef bankinn yrði seldur og ef bankinn yrði ekki seldur fyrir árslok 2018 eignaðist ríkið bankann.
Í raun fólst í þessu innbyggður hvati fyrir sölu á bankanum eins og nú er komið í ljós. Í stað þess að ríkið eignist bankann og hagnist á því verða það erlendir kröfuhafar sem þar með munu eignast íslenskan viðskiptabanka í fullum rekstri.
Þetta má þakka afleitum stjórnmálamönnum, þeirra sem á sínum tíma sömdu við kröfuhafa og voru verðlaunaðir fyrir.
Stundum er veruleikinn lyginni líkastur.