Bjarna er ekki trúandi

Skýrsla starfshóps fjármálaráðherra um aflandsfélög og áhrif þeirra er afar athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt, og á hún  fullt erindi við almenning. Það er því algjörlega óásættanlegt að fjármálaráðherra, sem sjálfur tók þátt í aflandsbraski, hafi haldið henni leyndri í tæpa 4 mánuði, jafnvel lengur.
Bjarni segir í viðtali við RÚV:,, Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar svona í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim.”  Nú er komið í ljós að Bjarni sagði ósatt um þetta atriði. Þegar Bjarni segir að skýrslan hafi ekki borist honum í endanlegri mynd fyrr en eftir tiltekinn tíma felur það í sér að hann hefur fengið hana í annarri mynd áður og þá væntanlega til umsagnar og til að fá færi á að hafa áhrif á endanlega útgáfu hennar.
Fjármálaráðherra gaf starfshópnum afar stuttan tíma til að vinna skýrsluna. Það gefur til kynna að ráðherrann hafi viljað hafa áhrif á hvenær og hvernig hún yrði birt. Enda hefur það komið í ljós. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar kröfðust þess að skýrslan yrði birt að ráðherrann Bjarni Benediktsson gaf sig og birti hana opinberlega, ríflega fjórum mánuðum eftir að hún barst honum „í endanlegri mynd.“  Til að bæta svo gráu ofan á svart hefur ráðuneytið átt við skýrsluna í þeim tilgangi að leyna því hvenær hún barst ráðherra.
Þingið þarf skilyrðislaust að fá aðgang að öllum samskiptum fjármálaráðuneytisins og starfshópsins sem vann skýrsluna allt frá þeim degi er hópurinn tók til starfa þar til hann skilaði af sér og var leystur upp. Þingið þarf að kalla eftir öllum gögnum, fundargerðum, tölvupóstum og öllum útgáfum skýrslunnar á vinnslustigi til lokaskila.
Furðuleg viðbrögð fjármálaráðherra við eðlilegum spurningum fjölmiðla og það sem á eftir hefur komið bendir til þess að honum sé hvorki treystandi né trúandi til að segja allan sannleikann um þetta mál.
Það er í raun vandséð hvernig Bjarni Benediktsson getur setið áfram sem þingmaður og ráðherra. Enn vandséðara er að Bjarni geti undir þessum kringumstæðum myndað ríkisstjórn og óskað blessunar forseta Íslands fyrir því að verða forsætisráðherra landsins.
Húsbóndinn á Bessastöðum hlýtur að vera hugsi yfir stöðunni eins og aðrir landsmenn.

Mynd: Pressphoto.is

 

Mynd: Pressphoto.is