Smá upprifjun um stjórnarskrármálið

Stundum ber orðræðan rökræðuna ofurliði og sögusagnir verða að fljúgandi staðreyndum sem enginn fótur er fyrir. Dæmi um það er að vinstristjórnin hafi svikið þjóðina í því að gera breytingar á stjórnarskránni.
Þegar betur er að gáð á þetta sér enga stoð í raunveruleikanum heldur þvert á móti.
Árið 2010 samþykkti Alþingi lög um stjórnlagaþing. Flutningsmaður lagafrumvarpsins var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Lögin voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu og 11 hjásetum – allt frá sjálfstæðisflokknum. Þjóðin var síðan boðuð til funda til að ræða væntanlegar breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlagaráð var svo kosið í beinni kosningu en kosning var kærð og dæmd ólögmæt vegna tæknilegs ágalla við framkvæmd hennar.
Alþingi samþykkti þá að skipa sérstakt stjórnlagaráð og bauð þeim sem fengið höfðu kosningu  á stjórnlagaþingið að taka sæti í ráðinu. 21 þingmaður lagðist gegn því að stjórnlagaráð yrði skipað, allt þingmenn hægriflokkanna að Lilju Mósesdóttur undanskilinni. Stjórnlagaráð tók til starfa og skilaði Alþingi tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin samþykkti að lagðar yrðu til grundvallar að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.
Hægriflokkarnir börðust allt síðasta kjörtímabil af hörku gegn breytingum á stjórnarskránni. Undir lokin fengu þeir svo stuðning úr óvæntustu átt þegar þingmenn Hreyfingarinnar lögðu fram vantraust á ríkisstjórn vinstriflokkanna vegna málsins. Báðir formenn hægriflokkanna sögðust myndu styðja vantraustið þótt þeir væru ósammála málatilbúnaðinum á bak við tillöguna!
Rétt eins og hægriflokkarnir komu í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningarnar 2007 og 2009 tókst þeim að stöðva frekari framdrift málsins í þinginu fyrir kosningarnar 2013.
Allt frá upphafi voru það vinstriflokkarnir sem keyrðu málið áfram í þinginu og utan þess. Það var vegna þeirra flokka sem málið komst svo langt sem það komst og það var vegna harðfylgi þingliðs þáverandi ríkisstjórnar sem öll sú góða vinna var unnin við undirbúning að gerð nýrrar stjórnarskrár. Þjóðin ákvað síðan í kosningum vorið 2013 að setja málið í salt þangað til  búið væri að leiðrétta hana.
Síðan hefur ekkert gerst í stjórnarskrármálinu.
Fullyrðingar um að það hafi verið ríkisstjórn vinstriflokkanna sem hafi "svikið þjóðina" um nýja stjórnarskrá eiga sér því enga stoð í raunveruleikanum.

Comments

Sigurður Eggert Sigurðsson's picture

Mér finnst að stjórnarandstaðan kæri til umbosmanns Alþingis meðferð Ríkisstjórnarflokkanna á stjórnarskrárfrumvarpinu sem 75% þjóðarinnar samþykkti, þ.e.a.s. efef stjórnarandstaðan er að tala og starfa af heilindum sem ég efast oft um að sé raunin á eftir játningu Árna Páls. Einnig hlýtur að vera til einhver kæruleið t.d. dómstóll, í Evrópubatterýinu sem getur tekið á slíkum brotum stjórnvalda að afgreiða ekki mál sem fólkið í landinu hefur samþykkt.

Einnig er undarlega lítill yfirlýstur stuðningur félagshyggjuafla á Alþingi við kröfu Eyglóar Harðardóttur að krefjast rannsóknar á Borgunarmálinu,að maður tali nú ekki um verkalýðshreyfinguna sem er til lítils nýt þegar hún ætti að standa með fólkinu í landinu.

Enginn hefur krafið stjórnvöld um rannsókn á dularfullum örlögum sjóðs Samvinnutrygginga en þar hurfu milljarðar sem áttu að deilast út til viðskiptavina.