Er öllum virkilega andskotans sama?

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður framsóknarflokksins og ráðherra, átti á sínum tíma sæti í þverpólitískri þingmannanefnd sem vann úr skýrslu RNA um Hrunið. Í einni ræðu sinni um málið ræddi Sigurður Ingi mikið um þann skort sem var á formfestu við ákvarðanatöku og afgreiðslu mála í aðdraganda Hrunsins.
Orðrétt sagði hann um það: „Við (nefndarmenn) vorum sammála og samstiga í vinnunni um þá þætti sem koma fram í rannsóknarskýrslunni og lýsa sér í hörðum áfellisdómi og alvarlegum ávirðingum á starfshætti Alþingis, verklag og óformfestu stjórnvalda.“
Einnig: „Það er sorglegt að lesa 19. og 20. kafla í 6. bindi rannsóknarskýrslunnar þar sem formleysið, ábyrgðarleysið, skortur á verkferlum, allt þetta stendur einhvern veginn upp úr bókinni eins og klippimyndir í bók sem opnast þegar maður opnar hana. Stundum verður maður hálfþungur yfir þessum lestri.“
Og: „Við verðum að tileinka okkur meiri formfestu og fagmennsku, þótt okkur finnist það leiðinlegt.“
Þeir sem nenna að lesa ræðu Sigurðar Inga geta síðan fundið fjölmörg fleiri dæmi.
Nú er Sigurður Ingi ráðherra í ríkisstjórn undir forystu forsætisráðherra framsóknarflokksins sem skipar leynilega ráðgjafahópa um mikilvægustu mál þjóðarinnar. Launaða hópa sem hvorki halda fundargerðir né uppfylla nein skilyrði um lágmarksformfestu eða gera nokkrum grein fyrir störfum sínum nema þá forsætisráðherranum. Leynilegir hópar á vegum stjórnvalda sem beinlínis er ætlað að fara fram hjá lýðræðislega kjörnu þingi er einhvern veginn svo brjálæðislegt að það nær ekki nokkru tali.
Hvers konar stjórnarfar er þetta að verða? Hvernig stendur á því að fjölmiðlar í vestrænu lýðræðisríki eins og Íslandi fara ekki hamförum í þessu máli og gegn þessum stjórnarháttum, sem beinlínis vega að rótum lýðræðisins?
Er öllum virkilega andskotans sama?

 

Comments

Kári Rafn Sigurjónsson's picture

   

                SDG er að líkjast einræðisherra !!!

Stefán Agnar Finnsson's picture

Ég myndi vilja spyrja leynilega ráðgjafahóp SDG. 

Ef tillaga utanríkisráðherra um slit viðræðna verður samþykkt. Hvaða áhrif hefur það á uppgjör gömlu bankanna? 

Ef aðild að ESB verður samþykkt og  EVRA verður í sjónmáli eftir átta ár. Hvaða áhrif hefur það á uppgjör gömlu bankanna? 

Hverjir eru í hóp þeirra sem helst hagnast í hvoru tilviki?