Rökin fyrir lækkun veiðigjaldsins standast ekki skoðun

Ein aðal röksemdarfærsla gegn veiðigjaldinu er sú að gjaldið dragi svo úr afkomu útgerðarinnar að ekkert sé eftir til fjárfestinga og viðhalds. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra atvinnuvegaráðherra bætti þessari sömu röksemd fyrir lækkun gjaldsins þegar hann mælti fyrir málinu í þinginu. Þessi rök standast enga skoðun.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu LÍÚ kemur fram að EBITDA (hagnaður vexti, skatta og afskriftir) hefur aldrei verið meiri en undanfarin ár og eykst stöðugt og hreinn hagnaður sömuleiðis. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var EBITDA í sjávarútvegi á árinu 2012 um 80 mia.kr. Jafnvel eftir að áætlað veiðgjald hefur verið dregið frá standa eftir 65-68 mia.kr. fyrirtækjunum sem er meira en nokkru sinni fyrr í sögunni.
Því hefur einnig verið haldið fram að lítil sem engin fjárfesting hafi verið í útgerð síðustu árin vegna óvissu um framtíð greinarinnar og veiðigjaldanna. Sú fullyrðing stenst heldur enga skoðun. Frá miðju ári 2011 til ársloka 2012 má ætla að fjárfesting í greininni, ný fjárfesting og endurbætur, hafi ekki verið undir 40 mia.kr. Má þar nefna nýtt skip Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, nýtt skip hjá Brimi hf í Reykjavík, kaup Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað á skipi og útgerð frá Vestmannaeyjum, kaup Samherja á starfsemi Brims hf. á Akureyri, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna á austurlandi, viðhaldi skipa og endurbótum, fjárfesting í uppsjávarvinnslum sömuleiðis, og er þá langt því frá allt til talið af fjárfestingum í sjávarútvegi síðustu árin. Greinin stendur nú betur en nokkru sinni fyrr, sem betur fer, enda munum við þurfa að treysta mjög á þessa mikilvægu atvinnugrein við að rífa okkur upp úr Hruninu.
Það er m.a. vegna þessara staðreynda sem AGS komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að það vitlausasta sem gert væri í efnahagsmálum á Íslandi í dag væri að lækka veiðigjaldið á sjávarútveginn. Gjaldið eins og það er í dag mun á engan hátt draga úr getu greinarinnar til fjárfestinga og endurnýjunar að mati AGS og því ætti ekki að lækka það.
Það eru því engin efnisleg rök fyrir því að lækka gjaldið eins og ríkisstjórnin hyggst gera þó gera þurfi á því ákveðnar lagfæringar.
Það búa aðrar ástæður að baki.